Geymsla forngripa á byggðasöfnum

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:08:26 (194)

1995-10-11 14:08:26# 120. lþ. 8.6 fundur 28. mál: #A geymsla forngripa á byggðasöfnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Í III. kafla þjóðminjalaga er fjallað um fornminjar og er þar gerður greinarmunur á fornleifum annars vegar og forngripum hins vegar sem fjallað er um í 26.--28. gr. laganna. Í 26. gr. er fjallað um hvernig fara skuli með ef forngripir finnast. Þá hljóðar 3. mgr. 26. gr. svo, með leyfi forseta: ,,Allir munir, sem grein þessi fjallar um, eru eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni eða hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi sker þjóðminjaráð úr.`` 7. gr. þjóðminjalaga hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar um menningarsögu þjóðarinnar og kynna þær almenningi.`` Í 4. mgr. 7. gr. segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Hverju byggðasafni ber að leggja áherslu á söfnun og sýningu muna sem telja má einkennandi eða hafa sögulegt gildi fyrir hlutaðeigandi byggðarlög eða landsfjórðung.`` Að lokum, með leyfi forseta, hljóðar 2. mgr. 4. gr. svo: ,,Á hverju minjasvæði skal starfa einn minjavörður. Hlutverk minjavarða er að hafa umsjón með menningarminjum og fornleifavörslu, skráningu og eftirliti forngripa og gamalla bygginga og vera byggðasöfnum til ráðuneytis og aðstoðar. Minjaverðir skulu að öðru jöfnu hafa sérfræðilega menntun á sviði menningarsögu eða fornleifafræði.``

Í hinum tilvitnuðu greinum kemur ótvírætt fram hlutverk og skyldur byggðasafna við byggðarlög og landsfjórðung. Einnig virðist skýrt að hlutverk minjavarða er m.a. skráning og eftirlit með fornminjum. Í 26. gr. er gert ráð fyrir að forngripir skuli varðveittir m.a. í byggða- eða minjasöfnum. Hins vegar er einnig gert ráð fyrir að upp geti risið ágreiningur um það hvar forngripir skuli varðveittir og sker þá þjóðminjaráð úr.

Ég spyr því hæstv. menntmrh.:

,,Hvaða reglur gilda um það hvenær heimilt er að geyma forngripi í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni skv. 26. gr. þjóðminjalaga?

Telur ráðherra eðlilegt að styrkja starfsemi viðkomandi byggðasafna með því að heimila þeim geymslu á forngripum sem finnast í nágrenni þeirra?``

Fyrirspurn mín er ekki síst tilkomin vegna þeirra forngripa sem fundust nú nýverið í landi Eyrarteigs í Skriðdal. Komið hefur fram mjög ákveðinn vilji starfsmanna Minjasafns Austurlands til að fá að varðveita í minjasafninu þá muni er fundust í kumlinu. Einnig hefur bæjarráð Egilsstaðarbæjar ályktað um málið og styður heils hugar starfsmenn safnsins í viðleitni þeirra. Það hlýtur að teljast styrkur fyrir staðbundið minjasafn að varðveita og hafa til sýnis fyrir almenning svo merkilega gripi sem hér um ræðir. Það hlýtur einnig að vera umhugsunarefni hvort ekki er rétt að fornminjar verði til sýnis sem næst uppruna sínum til þess að hægt sé að gera sér betur grein fyrir menningu og sögu héraðanna. Ég tel því nauðsynlegt að um þetta efni komi fram álit hæstv. menntmrh., sem fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu.